Styrkir
Hollvinasjóður
Meginmarkmið sjóðsins var í fyrstu að leggja skólanum til fjármagn til skilgreindra verkefna með viðhald eldra húsnæðis í forgrunni. Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að Hollvinasjóðurinn sinni öðrum mikilsverðum málefnum í skólastarfinu, s.s. að styrkja rannsóknarverkefni og veita viðurkenningar til nemenda og kennara. Allt mun það þó miðast við að velunnarar Bifrastar leggi sjóðnum til ríflegt fjármagn á komandi tímum.
Við leitum til þín kæri Bifrestingur!
Til að byggja Hollvinasjóðinn upp og gera okkur það kleift að styðja skólann leitum við til þín kæri Bifrestingur. Bendum við á að viljir þú leggja samtökunum lið er hægt að leggja inn á söfnunarreikning Hollvinasjóðsins í Arionbanka í Borgarnesi. Banki: 326-22-001083, kennitala: 420714-0330.
Þrjúhundruð þúsund í Hollvinasjóð Bifrastar til heiðurs Þóri Páli
Þórir Páll Guðjónsson hefur verið farsæll kennari á Bifröst um langt árabil ásamt því að vera öflugur leiðtogi Hollvinasamtakanna. Hann varð sjötugur sunnudaginn 26. apríl 2015 og bauð til veglegrar veislu sem haldin var í hátíðarsalnum á Bifröst. Þórir Páll afþakkaði allar afmælisgjafir og því brá samstarfsfólk ásamt stjórn Hollvinasamtakanna á það ráð að hefja söfnun honum til heiðurs og var afmælisbarninu afhent gjöf í hans nafni til Hollvinasjóðs Bifrastar að upphæð kr. 300.000. Hlutverk sjóðsins þá var m.a. að styðja við nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir á upphaflega skólahúsnæðinu á Bifröst. Fjölmargir fyrrum nemendur og starfsmenn Háskólans á Bifröst tóku þátt í gjöfinni enda hefur Þórir Páll verið vinsæll kennari og traustur samstarfsfélagi á Bifröst í um þrjá áratugi. Gjöfin kom Þóri Páli gjörsamlega á óvart en það voru þær Geirlaug Jóhannsdóttir og Maj Britt Hjördís Briem sem afhentu honum gjöfina fyrir hönd samstarfsfólks og stjórnar Hollvinasamtakanna. Í kjölfar afmælisins lagði Þórir Páll inn 70 þúsund krónur á reikning Hollvinasjóðsins sem þakklætisvott fyrir að fá aðstöðu á Bifröst til að halda upp á afmæli sitt.
Ljósmyndina tók: Pablo Rolando Díaz