Atvinnuviðtal

Ef þú hefur komist í atvinnuviðtal þá hefur umsókn þín náð í gegn og þú hefur eiginleika, mentun, reynslu og/eða hæfni sem fyrirtækið sækist eftir. Nokkrar gerðir eru af atvinnuviðtölum en hér verður farið yfir helstu atriði sem hafa þarf í huga þegar farið er í viðtal.

Mundu að þú ert komin/n í viðtal til að selja og að söluvaran ert þú sjálf/ur. Mikilvægt er að hafa eftirfarandi í huga áður en farið er af stað.

1.     Stundvísi er gríðarlega mikilvæg, gerðu ráð fyrir að þú verðir fyrir töfum á leiðinni í viðtalið og að þú þurfir að vera komin 5-10 mínútum fyrir áætlaðan tíma. Ekki er gott að vera komin allt of snemma þar sem það getur valdið ráðningaaðilanum vandkvæðum.

2.     Snyrtimennska skiptir máli þegar farið er af stað í viðtal. Hafðu hugfast að klæðnaður ætti alltaf að miðast við þær aðstæður sem viðtalið fer fram í og það starf sem sótt er um. Ef þér líður vel er líklegra að þú verðir öruggari með þig. Mundu bara að vera snyrtilegur í klæðaburði, hafa hár og tennur hreinar og snyrtilegar og síðast en ekki síst að nota ilmefni í hófi og skartgripi og andlistmálningu við hæfi.

3.     Hvað skal hafa meðferðis í atvinnuviðtal? Mikilvægt er að hafa auka eintak af ferilskrá og kynningarbréfi meðferðis. Ef beðið var um eða þú sendir afrit af prófskírteinum eða gögnum þá skaltu hafa eintök af þeim meðferðis eða annað efni sem þú getur notað til að rökstyðja mál þitt eða varpa skýrari sýn á þig sem eftirsóknarverðan einstakling.

4.     Framkoma og tjáning þín í viðtalinu segja mikið um þig sem einstakling. Öruggt fas, þétt handatak og augnsamband gefa til kynna að þú sért örugg/ur og líði vel. Reynið að vera meðvituð um líkamsstöðu ykkar, ekki sitja með krosslagðar hendur eða í lokaðri líkamsstöðu. Verið meðvituð um hendurnar, ekki fikta stanslaust í hárinu á ykkur eða smella pennanum. Almenna kursteisi skal viðhafa, hlýlegt bros og jákvæðni eru líka mikilvægir förunautar. Reynið að vera afslöppuð og svara frá hjartanu en ekki með upptalningu, passið að vera ekki of stíf því það er í lagi að gera grín og hlægja í atvinnuviðtölum.

Spurningar sem þið megið búast við geta verið af ýmsum toga og gott er að gera sér grein fyrir því við hverju má búast. Eftirfarandi spurningar eru algengar í atvinnuviðtölum og gott að hafa svör við.

·       Afhverju sóttir þú um starf hjá okkur?

·       Afhverju viltu hætta í því starfi sem þú sinnir núna?

·       Hver eru helstu verkefni sem þú sinnir í núverandi starfi?

·       Eru önnur verkefni sem þú hefur ef til vill sinnt utan vinnu og þú vilt segja okkur frá?

·       Segðu okkur aðeins meira frá sjálfri/ sjálfum þér. (Einkenni og áhugamál, hugsanlega fjölskyldustaða)

·       Hverjir eru helstu kostir þínir?

·       Hverjir eru helstu veikleikar þínir? (Enginn er fullkominn)

·       Hvernig er tölvu- og tungumálakunnátta þín?

·       Hvernig hafa samskipti þín við samstafsfólk gengið hingað til? En almennt?

·       Hefurðu átt í ágreiningi á vinnustað?

·       Ertu skipulögð/skipulagður í vinnu?

·       Áttu auðvelt með að sýna frumkvæði? Geturðu nefnt dæmi þar sem þú hefur sýnt frumkvæði í vinnu?

·       Hver eru markmið þín næstu 3-5 árin?

·       Hversu lengi sérðu fyrir þér að vinna hér ef þú yrðir ráðinn?

·       Hvaða væntingar hefur þú til starfsins eða fyrirtækisins?

·       Hvaða launavæntingar hefur þú?

·       Hvenær gætir þú hafið störf?

·       Afhverju ættum við að ráða þig en ekki einhvern annan?

·       Er eitthvað sem þú vilt spyrja okkur um?

Það er ekkert eitt rétt svar við spurningunum og því mikilvægt að svara af hreinskilni og einlægni, varist að hafa svörin og stutt eða of löng. Já eða nei svör eiga sjaldnast við og miðaðu við að hægt sé að svara öllum spurningum á innan við tveimur mínútum.

Spurningar ykkar til vinnuveitanda skipta ekki síður máli og sýna að þið hafið kynnt ykkur málin, að þið hafið áhuga og að vinnuumhverfi og aðstaða skipti máli. Ekki vera með of margar spurningar en hafið þær hnitmiðaðar og skrifið þær niður áður en þið komið í viðtalið t.d.

·       Hvar í stjórnskipunarritinu er starfið og hver er næsti yfirmaður?

·       Hver er meðal starfsaldur innan fyrirtækisins?

·       Er starfsmannafélagið virkt?

·       Hef ég möguleika á starfsþróun innan fyrirtækisins?

·       Hversvegna er þessi staða laus?

·       Hvaða laun eruð þið að bjóða fyrir þessa stöðu?

·       Hver er vinnuramminn?

·       Hvernig er vinnuaðstaða fyrir starfsfólk?

 

Umfram allt skiptir máli að fara jákvæður inn í hvert viðtal, spurningarnar eru ekki til þess ætlaðar að þú lærir svörin utanbókar heldur til að þú áttir þig á hvers er ætlast af þér í viðtalinu. Farðu inn í hvert viðtal eins og það sé þitt fyrsta.