Framtíðarsýn

Við stofnun Hollvinasjóðsins setti fyrsta stjórn sjóðsins sér m.a. það markmið að afla sjóðnum tekna frá vinveittum fyrirtækjum og einstaklingum og lagði fyrst í stað áherslu á nauðsynlegt viðhald á „andliti skólans“, þ.e. upphaflegu byggingunum á Bifröst - meistaraverki Sigvalda Thordarsonar - setustofunni (Kringlunni) og hátíðarsalnum. Sjóðurinn náði að styrkja þær framkvæmdir, sem og viðgerð á listaverki Ásmundar Sveinssonar, Lífsorku.

Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að Hollvinasjóðurinn sinni mikilsverðum málefnum í skólastarfinu, s.s. að styrkja rannsóknarverkefni og veita viðurkenningar til nemenda og kennara. Allt mun það þó miðast við að velunnarar Bifrastar leggi sjóðnum til ríflegt fjármagn á komandi tímum. Af hálfu skólans munu þau fyrirtæki sem styrkja sjóðinn eiga þess kost, á góðum kjörum, að njóta sérþekkingar öflugs kennaraliðs Háskólans á Bifröst, s.s. á sviði viðskiptaráðgjafar og námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína. Tekið skal fram að samkvæmt skattalögum er heimilt að færa framlög til Hollvinasjóðsins til frádráttar tekjum, með ákveðnum almennum skilyrðum.