Sagan
Hinn 14. september 1958 stofnuðu nemendur útskrifaðir frá Samvinnuskólanum að Bifröst Nemendasamband Samvinnuskólans, skammstafað NSS. Í frétt frá þeim fundi segir m.a. “tilgangur með stofnun NSS er að treysta bönd gamalla nemenda við skóla sinn og efla kynni og skilning milli eldri og yngri nemenda.”
Þetta voru þó ekki fyrstu nemendur nýs skóla. Þetta ár voru 40 ár liðin frá því Samvinnuskólinn var stofnaður í Reykjavík, fyrsti verslunarskóli landsins og gaf nemendum sínum ekki eingöngu hreina faglega menntun, heldur einnig víðtæka almenna menntun. Skólinn var hugsaður sem foringjaskóli, skóli sem undirbyggi nemendur til forystu í viðskipta- og félagslífi. Brautin var mörkuð, þannig starfaði Samvinnuskólinn í Reykjavík og seinna skólinn á Bifröst.
Það hefur verið gæfa skólans að hafa í forystu og til kennslu færa menn á öllum sviðum. Skólinn hefur jafnan aðlagast breyttum þjóðfélagsháttum á hverjum tíma og ávallt verið í fararbroddi. Þjóðlífsbreytingar á þessum árum hafa verið gífurlegar en skólinn hefur ætíð haldið í við þær enda nemendur hans eftirsóttir til starfa á öllum sviðum þjóðlífsins og jafnan verið áberandi í umræðunni. Svo er enn í dag og síðustu ár hefur skólinn á Bifröst blásið til enn frekari sóknar, ekki aðeins með miklum og reisulegum byggingum, heldur einnig með nútímalegu námsefni og kennsluaðferðum.
Samkennd og samheldni hefur einkennt það fólk sem hefur úrskrifast frá Bifröst. Flestir sem þar hafa dvalið við nám, störf og leik eiga góðar minningar og þar hafa skapast góð kynni og vinskapur. Því hefur Nemendasamband Samvinnuskólans oft starfað af miklum krafti og haft trausta forystumenn. Af störfum þess gegnum tíðina má nefna bekkjarkvöld, íþróttakeppni, blaðaútgáfu, útgáfu nemendatals skólans með skrá um alla nemendur uns skólinn varð háskóli, rekstur sumarhúss og fleira mætti nefna.
Á aðalfundi NSS í janúar 1999 urðu þau þáttaskil að lögum þess var breytt og sambandið varð hollvinasamtök sem treysta skyldu bönd yngri og eldri nemenda, efla kynni þeirra og síðast og ekki síst yrðu samtökin bakhjarl alls skólastarfs að Bifröst. Þá var einnig veitt heimild í lögunum til að starfsmenn skólans og fyrrverandi starfsmenn ásamt öllum þeim sem áhuga hefðu á að vinna að markmiðum sambandsins gæfist kostur á að gerast félagar. Þetta hafði verið einróma niðurstaða ráðstefnu sem haldin var að forgöngu stjórnar NSS og nefndar sem skipuð var í framhaldi hennar með tilliti til þeirra breytinga sem orðið höfðu við skipan háskóla rúmum tíu árum áður. Breytingar þessar voru unnar í samráði við forráðamenn á Bifröst og fulltrúa NSS í háskólastjórn.
Á aðalfundi samtakanna sem haldinn var þann 27. nóvember 2006 var lögunum enn breytt nokkuð og þau aðlöguð nýjum aðstæðum. Meðal annars var nafni samtakanna breytt í Hollvinasamtök Bifrastar og einnig er í nýju lögunum ákvæði um að allir nemendur sem útskrifast hafa úr Samvinnuskólanum, Samvinnuháskólanum, Viðskiptaháskólanum á Bifröst og Háskólanum á Bifröst séu sjálfkrafa félagar í Hollvinasamtökunum nema þeir óski eftir að vera það ekki. Félagar í Hollvinasamtökum Bifrastar eru nú rúmlega 3.000 talsins. Núgildandi lög samtakanna eru birt í heild sinni á vefsíðu samtakanna.
Forráðamenn Háskólans á Bifröst leggja mikla áherslu á að efla Hollvinasamtökin og til að undirstrika það hefur skólinn ráðið starfsmann í hlutastarf til að vinna að því að efla samtökin og bæta tengsl skólans við útskrifaða nemendur og aðra hollvini.