Hollvinasjóður

Félagar úr Hollvinasamtökum Bifrastar tóku höndum saman og stofnuðu sérstakan Hollvinasjóð Bifrastar, m.a. með það að markmiði að styðja starfsemi og áframhaldandi öfluga þróun Háskólans á Bifröst. Hugmynd um stofnun sjóðsins kom fram í stjórn Hollvinasamtakanna 2010-2011, og voru fyrstu drög að samþykktum hans gerð í febrúar 2011. Drögin voru svo færð í endanlegan búning fyrri hluta árs 2014. 

Liðlega 900 Bifrestingar greiddu stofnframlag til sjóðsins, sem stofnaður var samkvæmt lögum nr. 19/1988, um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Fyrsti formaður stjórnar Hollvinasjóðsins var Óli H. Þórðarson, fyrrv. framkvæmdastjóri og aðrir stjórnarmenn þeir Viðar Þorsteinsson, fyrrv. viðskiptastjóri og Þorvaldur Tómas Jónsson, fyrrum framkvæmdastjóri fjármála við skólann. 

Stjórnin setti sér m.a. það markmið að afla sjóðnum tekna frá vinveittum fyrirtækjum og einstaklingum og lagði fyrst í stað áherslu á nauðsynlegt viðhald á „andliti skólans“, þ.e. upphaflegu byggingunum á Bifröst - meistaraverki Sigvalda Thordarsonar - setustofunni (Kringlunni) og hátíðarsalnum. Sjóðurinn náði að styrkja þær framkvæmdir, sem og viðgerð á listaverki Ásmundar Sveinssonar, Lífsorku.

Til lengri tíma litið er gert ráð fyrir að Hollvinasjóðurinn sinni öðrum mikilsverðum málefnum í skólastarfinu, s.s. að styrkja rannsóknarverkefni og veita viðurkenningar til nemenda og kennara. Allt mun það þó miðast við að velunnarar Bifrastar leggi sjóðnum til ríflegt fjármagn á komandi tímum. Af hálfu skólans munu þau fyrirtæki sem styrkja sjóðinn eiga þess kost, á góðum kjörum, að njóta sérþekkingar öflugs kennaraliðs Háskólans á Bifröst, s.s. á sviði viðskiptaráðgjafar og námskeiðahalds fyrir starfsmenn sína. Tekið skal fram að samkvæmt skattalögum er heimilt að færa framlög til Hollvinasjóðsins til frádráttar tekjum, með ákveðnum almennum skilyrðum.

Þann 16. janúar 2015 kom hópur áhugamanna og velunnara Hollvinasjóðsins saman í húsakynnum Háskólans á Bifröst í Reykjavík til þess að leggja á ráðin um fjáröflun. Má líta á þennan ágæta hóp sem fulltrúa þeirrar fjöldahreyfingar sem stendur að Hollvinasamtökum Bifrastar.

Á myndinni eru:
Standandi: Sigrún Hermannsdóttir, Regína Sigurgeirsdóttir og Þórir Páll Guðjónsson úr stjórn Hollvinasamtaka Bifrastar, Ómar Valdimarsson framkvæmdastjóri Samkaupa, Leifur Runólfsson formaður Hollvinasamtakanna, Gísli Jónatansson fyrrv. kaupfélagsstjóri, Anna Elísabet Ólafsdóttir aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst og Guðsteinn Einarsson kaupfélagsstjóri í Borgarnesi og formaður háskólastjórnar á Bifröst.
Fremst sitja stjórnarmenn Hollvinasjóðsins, Þorvaldur Tómas Jónsson, ritari, Óli H. Þórðarson, formaður og Viðar Þorsteinsson, gjaldkeri.

Ljósmyndarinn er:
Kristján Pétur/Skyggna

Það var Bifrestingurinn Haukur Haraldsson, teiknari FÍT, sem gaf Hollvinasjóðunum firmamerki sjóðsins. Haukur útskrifaðist 1964 frá Samvinnuskólanum á Bifröst.